Hoppa yfir valmynd
21.3.2024
Aðalfundur Isavia - metnaðarfull uppbygging og stefnuáherslur til næstu 5 ára

Aðalfundur Isavia - metnaðarfull uppbygging og stefnuáherslur til næstu 5 ára

Ársskýrsla Isavia fyrir árið 2023 var gefin út á aðalfundi félagsins sem haldinn var á dögunum. Ársuppgjör félagsins fyrir sama tímabil var þá samþykkt auk þess sem stjórn var kjörin.

Metnaðarfull uppbygging framundan á Keflavíkurflugvelli
Í ávarpi sínu fór Kristján Þór Júlíusson, stjórnarformaður Isavia, yfir áskoranir í rekstri félagsins á síðasta ári og skipulag þess frá uppstokkun árið 2019. Hann sagði mikilvægara en nokkru sinni fyrr að eigendafyrirsvar félagsins, fjármála- og efnahagsráðuneytið fyrir hönd ríkisins, skilji og styðji nýuppfærða stefnumörkun móðurfélagsins. Uppbyggingaráætlun þess verði metnaðarfyllri bæði í tíma og kostnaði en núverandi fjárhagsleg geta standi undir og því óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir að styrkja þurfi félagið enn frekar með auknu hlutafé. Fyrir höndum sé að upplýsa eigendafyrirsvarið rækilega um nýjustu áætlanir og gefa því þar með tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun um framtíðaráform þess.

Stefnuáherslur til fimm ára
Á fundinum fór Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, yfir ársreikning félagsins og þá framtíðarsýn að Keflavíkurflugvöllur tengi heiminn í gegnum Íslands. Hann kynnti einnig nýsamþykktar stefnuáherslur næstu fimm ára það sem áherslan er á viðskiptavini og flugvallarsamfélag, menningu og stafræna hagræðingu. Leiðarstjarna Isavia til næstu fimm ára er að stutt verði við framtíðarvöxt flugfélaga sem velja Keflavíkurflugvöll sem sína tengistöð, enda leiða flugtengingar til betri lífsgæða og aukinnar hagsældar á Íslandi og þar gegnir Keflavíkurflugvöllur lykilhlutverki.

Ársskýrsla Isavia 2023

Ársskýrsla Isavia er nú aðgengileg á vef félagsins. Auk ávarpa forstjóra og stjórnarformanns eru þar teknar saman helstu upplýsingar um rekstur Isavia samstæðunnar á árinu 2023. Þar er ársreikningurinn, farið er yfir helsta árangur félagsins á síðasta ári og stefnumál þess. Ársskýrslan er gefin út í samræmi við staðal GRI og sérákvæðum hans um flugvelli. Þar er horft til áhrifa starfsemi félagsins á efnahag, umhverfi og samfélag. Skýrslunni er skilað inn sem framvinduskýrslu um stuðning Isavia við UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna og atvinnulífsins um ábyrga starfshætti. Isavia vinnur áfram að þeim tíu grundvallarviðmiðum SÞ sem varða samfélagslegaábyrgð á sviði mannréttinda, vinnumála, umhverfismála og aðgerða gegn spillingu.

Stjórn Isavia 2024-2025

Á aðalfundinum voru eftirfarandi kosin í stjórn Isavia ohf: Kristján Þór Júlíusson, stjórnarformaður, Hólmfríður Árnadóttir, Hrólfur Ölvisson, Jón Steindór Valdimarsson og Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir.