Hoppa yfir valmynd
14.7.2016
Afhending og viðtaka gagna líklega brot á samkeppnislögum

Afhending og viðtaka gagna líklega brot á samkeppnislögum

Afhending og viðtaka gagna tengdum forvali um samkeppni til reksturs verslana og veitingastaða í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, gæti varðað við samkeppnislög. Þetta kemur fram í bréfi sem Samkeppniseftirlitið hefur sent lögmanni Kaffitárs, með afriti til Isavia. Álit Samkeppniseftirlitsins staðfestir málflutning Isavia, sem hefur talið að það væri óheimilt að afhenda gögnin sem innihaldi samkeppnislega viðkvæmar upplýsingar um fyrirtæki sem tóku þátt í forvalinu.

Samkeppniseftirlitið fékk umrædd gögn til skoðunar og er niðurstaða þess að bæði afhending og viðtaka gagnanna geti stangast á við samkeppnislög. Samkeppniseftirlitið vísar til leiðbeinandi reglna ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) þar sem segi að ólögmætar samstilltar aðgerðir geti falist í því að „eitt fyrirtæki kemur upplýsingum um viðskiptaáform sín á framfæri við einn eða fleiri keppinauta, og þeir taka við þeim.“ Um brot sé að ræða nema viðtakandinn „bregðist við með ótvíræðri yfirlýsingu“ um að hann vilji ekki fá í hendur slíkar upplýsingar.

Ljóst er að þessar upplýsingar innihalda m.a. nákvæmar viðskipta- og markaðsáætlanir, upplýsingar um verð og ítarlegar greiningar á kostnaði og framlegð þeirra aðila sem þátt tóku í útboði Isavia og voru þar með keppinautar Kaffitárs um verslunarrými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Meðal umræddra aðila er jafnframt keppinautur Kaffitárs á veitingamarkaði á höfuðborgarsvæðinu.

Í niðurlagi bréfsins segir:

Með vísan til framangreinds telur Samkeppniseftirlitið að vísbendingar gætu verið um að móttaka og/eða miðlun þeirra mikilvægu og viðkvæmu viðskiptaupplýsingum sem felast í þeim gögnum sem Kaffitár hyggst taka á móti frá Isavia feli í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga eða að háttsemin gæti að minnsta kosti raskað samkeppni.

Kaffitár hafnar því að fara að tilmælum Samkeppniseftirlitsins

Þeim tilmælum er svo beint til Kaffitárs og Isavia að þau leiti allra mögulegra leiða til að veita Kaffitári aðgang að þeim upplýsingum sem félagið þurfi til að gæta að réttarstöðu sinni án þess að sú upplýsingamiðlun gangi svo langt að samkeppni sé raskað.

Isavia hefur óskað eftir því við Kaffitár að fulltrúar þeirra settust niður og færu yfir málið í samræmi við tilmæli Samkeppniseftirlitsins. Kaffitár hafnaði því svo nú liggur fyrir að Isavia ber að kröfu Kaffitárs að afhenda gögnin, þrátt fyrir að bæði félögin geti með því gerst sek um brot á samkeppnislögum.

Gögnin sem um ræðir tengjast forvali um samkeppni til reksturs verslana og veitingastaða í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þátttakendur afhentu mjög ítarleg viðskiptagögn og í ljósi þess hve ítarlegar upplýsingarnar voru, hét Isavia öllum þátttakendum í forvalinu fullum trúnaði. Dómur héraðsdóms hefur nú gert það að verkum að Isavia getur ekki virt þann trúnað. Samkeppniseftirlitið hefur nú tekið undir sjónarmið Isavia í málinu.

Kaffitár fór fram á að fá gögnin afhent, en í ljósi þess sem rakið er hér að ofan taldi Isavia að óheimilt væri að afhenda þau. Úrskurðarnefnd upplýsingamála úrskurðaði Kaffitári í vil og Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti þann úrskurð. Verða gögnin því afhent Kaffitári.

Isavia er enn þeirrar skoðunar að verulegur hluti þeirra gagna sem félaginu er gert að afhenda séu samkeppnislega viðkvæm gögn sem óheimilt sé að afhenda þriðja aðila. Bréf Samkeppniseftirlitsins staðfestir þá afstöðu.

Beiðni annarra aðila um afhendingu þessara gagna verða skoðuð í hverju tilviki.  

Hér má sjá bréf Samkeppniseftirlitsins.