Hoppa yfir valmynd
13.9.2023
Endurskoðun aðalskipulags Keflavíkurflugvallar

Endurskoðun aðalskipulags Keflavíkurflugvallar

Skipulags- og matslýsing vegna endurskoðunar á aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar hefur verið sett í kynningu. Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar samþykkti þann 28. ágúst 2023 að kynna lýsinguna þar sem gerð er grein fyrir tildrögum skipulagsvinnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni auk þess sem megin áherslur eru skilgreindar, helstu forsendur við endurskoðunina og fjallað um fyrirkomulag samráðs og kynninga. Umhverfismat verður unnið samhliða endurskoðun aðalskipulags Keflavíkurflugvallar til að tryggja að litið sé til umhverfissjónarmiða í öllu skipulagsferlinu.

Ferillinn við endurskoðun á aðalskipulagi er þannig að í upphafi vinnu tekur skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar saman lýsingu fyrir aðalskipulagsverkefnið þar sem gerð er grein fyrir tildrögum skipulagsvinnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni. Lýsingin skal vera kynnt opinberlega og almenningur fær tækifæri til að koma ábendingum á framfæri við sveitarfélagið. Samtímis er leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnar- og hagsmunaaðila. Næsta skref í ferlinu er síðan að kynna opinberlega drög að breytingartillögu ásamt drögum að umhverfisskýrslu. Samkvæmt tímalínu verkefnisins þá er sá þáttur endurskoðunar aðalskipulagsins áætlaður í lok árs.

Skipulags- og matslýsingin er aðgengileg á Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar og á vef Isavia til og með 6. október 2023 og eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér efni lýsingar og koma með sínar athugasemdir innan tilgreinds tímafrests í gegnum Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar.

www.skipulagsgatt.is

www.isavia.is/skipulag-i-kynningu