Hoppa yfir valmynd
11.2.2022
Isavia undirritar Toulouse-yfirlýsinguna

Isavia undirritar Toulouse-yfirlýsinguna

Isavia hefur undirritað Toulouse yfirlýsinguna um sjálfbærni og kolefnisleysi í flugtengdum rekstri. Nærri 100 flugvallarrekendur, samtök þeirra,  og fulltrúar um 200 flugvalla undirrituðu yfirlýsinguna.

Yfirlýsingin er unnin á vettvangi Evrópusambandsins með aðkomu hagaðila á borð við Evrópudeild Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI Europe – Airports Council International). Hún markar kaflaskil á þeirri vegferð flugvallarekenda í álfunni um að stefna að kolefnishlutleysi í flugvallarekstri fyrir árið 2050.

Með yfirlýsingunni taka ríkisstjórnir Evrópusambandsríkja, framkvæmdastjórn ESB og hagaðilar í fyrsta sinn höndum saman um að ná fram kolefnishlutleysi í flugiðnaði. Yfirlýsingin er sögð ryðja brautina fyrir samninga Evrópusambandsins um kolefnishlutleysi í flugiðnaði og heimsmarkmið þess í alþjóðaflugi á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO).

„Þessi yfirlýsing er mikilvægt næsta skref í átt að kolefnislausri framtíð í flugvallarekstri,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia. „Við höfum þó sett okkur það markmið að starfsemi Keflavíkurflugvallar verði orðin kolefnislaus árið 2030. Þar með erum  við í hópi með þeim flugvöllum innan  ACI Europe sem hafa sett sér það yfirlýsta markmið að ná þangað tuttugu árum á undan áætlun alþjóðasamtakanna.”

„Stjórn Isavia samþykkti í fyrra sjálfbærnistefnu fyrir félagið sem taki á loftslagsmálum, auðlindanýtingu, lífsgæðum og virðissköpun,” segir Hrönn. „Sett hafa verið skýr markmið, ákveðnir mælikvarðar og lögð fram fimm ára aðgerðaráætlun. Haldið er ítarlegt og skýrt stefnubókhald um aðgerðirnar til að tryggja framkvæmd þeirra. Þá fengum við hjá Isavia ISO 14001 umhverfisvottun í lok síðasta árs. Sú vottun styður við sjálbærnistefnuna og aðgerðaráætlunina og sýnir að þær eru ekki bara orðin tóm.”

 „Hver og einn flugvöllur sem skrifar undir þessa yfirlýsingu setur mark sitt á framtíð okkar sem atvinnugreinar, sem hagkerfis og sem samfélags,“ segir Olivier Jankovec, framkvæmdastjóri ACI Europe. „Þeir staðfesta metnað sinn, framtíðarsýn og yfirburði sem sjálfbærum aðgerðum.“