Hoppa yfir valmynd
9.1.2024
Meira en 300 sumarstörf á flugvellinum í sumar

Meira en 300 sumarstörf á flugvellinum í sumar

Alls verða yfir 300 fjölbreytt og skemmtileg sumarstörf í boði í ár á Keflavíkurflugvelli (KEF). Sumarstörf í KEF eru frábært tækifæri fyrir ungt fólk til að öðlast reynslu af starfi á alþjóðaflugvelli og á sama tíma fá tækifæri til að vinna á líflegum og skemmtilegum vinnustað.

Í sumar hafa rúmlega 300 einstaklingar, með fjölbreyttan bakgrunn og menntun, tækifæri á að ganga til liðs við flugvöllinn yfir sumarmánuðina.

Keflavíkurflugvöllur kappkostar við að veita starfsfólki sínu gott vinnuumhverfi og góðan starfsanda. Sumarstarfsfólki stendur til boða að mæta sér að kostnaðarlausu í líkamsræktarstöðvar, vera hluti af öflugu félagslífi, fá niðurgreiddan hádegismat í mötuneyti og fríar samgöngur í og úr vinnu með flugrútunni.

Spáð er miklum umsvifum í KEF í sumar en farþegaspá flugvallarins gerir ráð fyrir tæplega 5,8 milljónum farþega yfir sumarmánuðina, apríl til október, sem er 7,2% aukning frá fyrra sumri. Alls gerir spáin ráð fyrir 8,5 milljónum farþegum á árinu, þar af tæplega 2,4 milljónum erlendra ferðamanna. Gangi spáin eftir verður árið 2024 það þriðja stærsta í sögu KEF og það stærsta í komu erlendra ferðamanna til Íslands.

Ný austurálma mun stækka flugstöðina um 30%

Á síðari hluta ársins verður austurálma, ný viðbygging við flugstöðina, tekin að fullu í notkun en framkvæmdir hófust þar árið 2021. Bætast við nýir landgangar og rúmbetra setusvæði fyrir verslanir og veitingastaði, auk þess sem nýr töskusalur var opnaður þar á síðasta ári. KEF er í stöðugri þróun sem miðar að því að bæta aðstöðu á flugvellinum til að tryggja betri þjónustu og upplifun fyrir gesti.

Umsóknarfrestur fyrir sumarstörfin er til og með 12. apríl 2024.