Hoppa yfir valmynd
6.10.2023
Nemendur kynntust fjölbreyttum störfum á Keflavíkurflugvelli

Nemendur kynntust fjölbreyttum störfum á Keflavíkurflugvelli

Isavia tók þátt í starfsgreinakynningu grunnskólanna á Suðurnesjum fimmtudaginn 5. október. Yfir 900 nemendur í 8. og 10. bekk grunnskólanna, auk nemendahópa úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keili, fengu að kynnast hinum ýmsu störfum sem eru unnin á flugvellinum.

Starfsfólk Isavia kynnti störf sín sem vöktu mikla eftirtekt hjá nemendum en það eru meðal annars störf við flugvernd og eftirlit, tækniteiknun og arkitektúr, flugumferðarstjórnun, flugvallarþjónustu og farþegaakstri, ásamt störfum í mannauðsráðgjöf og raftæknideild. Þá var unga fólkið duglegt að spyrja út í störfin og margir fengu að prófa alls kyns búnað og tæki sem tengjast þessum fjölbreyttum störfum.

Tilgangur starfsgreinakynningarinnar, sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum stendur fyrir, er að efla starfsfræðslu grunnskólanema og auka starfsvitund og skerpa framtíðarsýn ungs fólks. Í sjálfbærnistefnu Isavia er lögð áhersla á markvissa vinnu með nærsamfélaginu, þátttöku í menntaaðgerðum og tækni- og starfsmenntun. Starfsgreinakynning sem þessi er því mikilvægur liður í að veita ungu fólki innblástur og kærkomið tækifæri fyrir starfsfólk að miðla af þekkingu sinni og reynslu.