Hoppa yfir valmynd
16.12.2019
Samkomulag um samvinnu vegna lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Samkomulag um samvinnu vegna lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, hefur undirritað samkomulag um nánari útfærslu á viljayfirlýsingu um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu á landi í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Auk Elínar undirrituðu þeir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, samkomulagið mánudaginn 16. desember 2019.

Fram kemur í samkomulaginu að um nokkurt skeið hafi Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. (Kadeco), fyrir hönd ríkissjóðs, ásamt Isavia, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ unnið markvisst að því að finna leiðir sem miði að því að finna skipulagi og frekari uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og í nágrenni hans sem bestan farveg.

Þeir sem eiga aðild að samkomulaginu, þ.e. Isavia, stjórnvöld og sveitarfélög við Keflavíkurflugvöll, eru á einu máli um að land í nágrenni vallarins sé verðmætt og það verðmæti eigi enn eftir að aukast. Gott skiplag sé forsenda þess að hægt verði að hámarka samfélagslegan ábata af nýtingu þessa lands. Skipulag á þessu svæði sé mikilvægt fyrir vaxandi atvinnustarfsemi þar, sköpun starfa og efnahagsþróun þar almennt. Því þurfi að tryggja heildstætt skipulag og landið sem um ræði verði nýtt með sem bestum hætti óháð mörkum Keflavíkurflugvallar og skipulagssvæða sveitarfélaganna sem um ræðir.

Viljayfirlýsingin, sem er nánar útfærð með nýja samkomulaginu, var undirrituð í lok júní 2019. Við það tækifæri sagði Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, að það væri mikið fagnaðarefni að tekist hefði samkomulag um samvinnu í þessu stóra máli. Isavia hefði lengi séð tækifæri í því að byggja upp sterkt samfélag sem nýtti nálægðina við Keflavíkurflugvöll.