Hoppa yfir valmynd
16.3.2021
Spurningakönnun Kadeco um framtíðarskipulag á Keflavíkurflugvallarsvæðinu

Spurningakönnun Kadeco um framtíðarskipulag á Keflavíkurflugvallarsvæðinu

Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, hefur fyrir hönd Isavia, íslenska ríkisins, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar hrundið af stað alþjóðlegri samkeppni um þróunaráætlun fyrir svæðið umhverfis flugvöllinn. Áætlunin nær til ársins 2050 og er ætlað að leggja grunn að þróunarkjarna fyrir atvinnulífið og nærsamfélagið á Reykjanesi.

Samkomulag um nánari útfærslu á viljayfirlýsingu um skipulag, þróun, hagnýtingu  og markaðssetningu á landi í nágrenni Keflavíkurflugvallar var undirritað af fulltrúum Isavia, íslenska ríkisins, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar í desember 2019. Þar var viljayfirlýsing um málið frá júní sama ár nánar útfærð. Við það tækifæri sagði Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, að það væri mikið fagnaðarefni að tekist hefði samkomulag um samvinnu í þessu stóra máli. Isavia hefði lengi séð tækifæri í því að byggja upp sterkt samfélag sem nýtti nálægðina við Keflavíkurflugvöll.

Við undirbúning alþjóðlegu samkeppninnar um þróunaráætlunina fyrir Keflavíkurflugvallarsvæðið stendur Kadeco nú að samráði við helstu hagaðila. Fólk sem býr á Reykjanesi og þeir sem sækja þangað vinnu er mikilvægur hagaðilahópur sem þekkir svæðið best.

Kadeco hefur opnað fyrir spurningakönnun um verkefnið til að ná samtali við þennan mikilvæga hóp. Niðurstöður könnunarinnar verða m.a. notaðar til að undirbúa samkeppnina um þróunaráætlunina sem fer á fullt skrið í maí.

Allir sem hafa áhuga á framtíðarþróun byggðar við Keflavíkurflugvöll eru hvattir til að taka þátt og hjálpa þannig til við að móta framtíð svæðisins.