Hoppa yfir valmynd
26.1.2015

Vegna fréttar Stöðvar 2 í gærkvöldi um Reykjavíkurflugvöll

​Alvarlegar villur eru í frétt um áhættumat um braut 06-24 á Reykjavíkurflugvelli sem birtist í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Fyrirsögn um að áhættumatshópur hafi verið látinn víkja fyrir verkfræðistofu byggir ekki á réttum staðreyndum. Hið rétta er að tvær skýrslur verkfræðistofunnar EFLU voru unnar í kjölfar alvarlegra athugasemda sem Samgöngustofa, sem er opinber eftirlitsaðili með flugöryggismálum, gerði við drög að áhættumati sem hópurinn vann vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar. Isavia brást við ósk Samgöngustofu um frekari gögn og leitaði til verkfræðistofunnar sem vann síðustu skýrslu um sama efni fyrir 15 árum og fulltrúar í áhættuhópnum vísa gjarnan til í fullyrðingum sínum. Þær greiningar á svo kölluðum nothæfisstuðli Reykjavíkurflugvallar byggðu á eldri og mun lakari veðurgögnum en nú eru fyrirliggjandi. Samkvæmt greiningu nýjustu gagna er nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar 97% miðað við tvær flugbrautir. Skýrsla EFLU var notuð sem viðmið við gerð áhættumats en er ekki áhættumatið sjálft. Það er nú til skoðunar hjá Samgöngustofu en skýrslur EFLU eru öllum aðgengilegar á vef Isavia.
 
Umræddum starfshópi voru kynnt áðurnefnd gögn og greining þeirra í desember sl.  Þar kom fram að gögnin sýndu fram á að þær aðstæður þegar hliðarvindur leiddi til áhættu vöruðu í umtalsvert styttri tíma en hið huglæga mat hópsins hafði byggt á. Þannig var komið ósamræmi milli nákvæmra mæligagna og huglæga matsins sem framkvæmt var í upphafi. Hópnum tókst ekki að komast að niðurstöðu um áhættu af breytingunni þar sem hagsmunaaðilar vefengdu nú þau ítarlegu gögn sem lögð höfðu fram. Hafði ferlið þá tekið nærri ár í framkvæmd. Í framhaldinu var ákveðið að endurtaka matið með sérfræðingum Isavia þar sem m.a. var horft til sömu áhættuþátta og fram höfðu komið áður.  Drög að áhættumati vegna fyrirhugaðra breytinga á Reykjavíkurflugvelli voru þvínæst send Samgöngustofu í annað sinn.