Hoppa yfir valmynd
21.3.2022
Viltu reka veitingastaði á Keflavíkurflugvelli?

Viltu reka veitingastaði á Keflavíkurflugvelli?

Isavia leitar að öflugum viðskiptafélögum til að taka þátt í útboði um rekstur tveggja veitingastaða á Keflavíkurflugvelli. Af því tilefni verður opinn kynningarfundur um útboðið í Hörpu 30. mars. Einnig verða kynnt þau fjölmörgu tækifæri sem eru í verslunar- og veitingarekstri á Keflavíkurflugvelli í framtíðinni.

Veitingastaðirnir tveir verða með ólíku sniði og nálgun en reknir af sama rekstraraðila. Mikilvægt er að rekstraraðilar sem taka þátt í útboðinu hafi víðtæka reynslu af rekstri veitingahúsa og veiti hágæðaþjónustu í lifandi umhverfi. Þau sem uppfylla kröfur útboðsins og hafa áhuga á að kynna sér málið betur eru hvött til að mæta á kynningarfundinn. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og verða útboðsgögn gefin út 28. mars, tveimur dögum fyrir kynningarfundinn. Isavia fylgir lögum og reglum um opinber innkaup. Útboðið er því byggt á grundvelli reglugerðar nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk og þjónustu.

Framundan er mesta uppbyggingarskeið í sögu Keflavíkurfluvallar. Því fylgja ný og spennandi tækifæri í enn betri flugstöð.

Óskað er eftir skráningu á fundinn en nánari upplýsingar og skráningarform má finna hér.