Hoppa yfir valmynd

Efnahagur Isavia

Í framhaldi af samþykki stjórnar Isavia, að leggja þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar til grundvallar allri uppbyggingu flugvallarins er ljóst að ráðast þarf í miklar framkvæmdir á komandi árum sem kalla á mikið fjármagn. Efnahagur Isavia er vel í stakk búinn fyrir þá uppbyggingu sem framundan er. Aðgengi félagsins að lánsfjármagni hefur verið gott og um þessar mundir eru engin sérstök merki um að breyting verði þar á. Aftur á móti er mikilvægt í ljósi umfangs að nálgast frekari uppbyggingu með áhættumeðvitund að leiðarljósi enda hlaupa fyrirhugaðar fjárfestingar á mörgum tugum milljarða króna á komandi árum.

Sem dæmi um styrka stöðu efnahags félagsins þá hefur eiginfjárhlutfall þess nánast staðið í stað frá því í lok árs 2013 en á sama tíma hefur verið fjárfest fyrir tæpa 43 milljarða króna, og hafa þær fjárfestingar verið fjármagnaðar úr rekstri og með lántökum.