Hoppa yfir valmynd
16.9.2015

Um áhættumat vegna brautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli

Vegna gagnrýni á áhættumat sem Isavia vann eftir ítarlegum skýrslum sem verkfræðistofan Efla gerði er verður hér endurbirt frétt sem birtist á vef Isavia hinn 9. júlí síðastliðinn. Meginatriði fréttarinnar eru þessi: 

  • Áhættumatið er í fullu samræmi við kröfur Alþjóðaflugmálastofnunar (ICAO)
  • Skýrslurnar sem Efla vann sýna tölfræði lendinga á hverri braut og við hvaða skilyrði, skýrslan sem notuð var til grundvallar áhættumatinu er samkvæmt kröfum Alþjóðaflugmálastofnunar. Önnur og ítarlegri skýrsla var einnig unnin þar sem ítrustu skilyrði voru tekin með. Sú skýrsla gaf í meginatriðum sömu niðurstöðu. 
  • Áhættumatið var gert út frá tveimur flugvélategundum, Fokker 50 sem notuð er til áætlunarflugs og Beechcraft Kingair 200, sem notuð er til sjúkraflugs. 
  • Áhættumat sem þetta nær ekki yfir sjúkraflutninga með flugvélum og ástand sjúklinga sem fluttir eru, enda er það heilbrigðisyfirvalda að meta þá áhættu en ekki þeirra sem reka flugvelli. 

 

Fréttin sem birt var 9. júlí síðastliðinn:

 

UM ÁHÆTTUMAT SEM ISAVIA VANN UM BRAUT 06/24 Á REYKJAVÍKURFLUGVELLI

09.07.2015 13:54

Isavia vann að beiðni innanríkisráðuneytis áhættumat á áhrifum hugsanlegrar lokunar flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli. Áhættumatið nær til farþegaflugs á Reykjavíkurflugvelli. Kannaðar voru sérstaklega tvær flugvélategundir, Fokker 50, sem er notuð til áætlunarflugs, og Beechcraft Kingair 200, sem notuð er til sjúkraflugs. Matið nær ekki til sjúkraflutninga með flugvélum enda er það ekki Isavia að meta sjúkraflutninga sérstaklega heldur er það á hendi velferðarráðuneytisins.

Áhættumatið er unnið eftir verklagi sem byggir á kröfum Alþjóðaflugmálastofnunar (ICAO) og Samgöngustofa hefur yfirfarið það og samþykkt. Hinn 4. júní 2015 var matinu skilað til innanríkisráðuneytis. Matið er eitt af gögnunum sem innanríkisráðuneyti notar við ákvörðun um hvort brautinni verður lokað eða ekki. Isavia rekur innanlandsflugvallakerfi landsins samkvæmt þjónustusamningi við innanríkisráðuneytið. Isavia tekur ekki ákvörðun um hvaða þjónusta er veitt, það er á hendi ráðuneytis.

Matið er unnið á grundvelli ítarlegrar skýrslu um nothæfisstuðul Reykjavíkurflugvallar. Samhliða skýrslunni um nothæfisstuðul var unnin önnur skýrsla um svokallaðan „nothæfistíma“. Sú skýrsla byggði á enn ítarlegri gögnum og tók meðal annars mið af brautarskilyrðum, vindhviðum og skýjahæð til viðbótar við hliðarvind. Skýrslan um nothæfistíma sýndi í meginatriðum sömu niðurstöðu og skýrslan um nothæfisstuðul.

Niðurstöður áhættumats sem þessa geta verið þrenns konar, óásættanlegt (rautt), þolanlegt (gult) og ásættanlegt (grænt). Niðurstaða þessa áhættumats var að áhrifin væru þolanleg.

Tengt efni:

Áhættumatið í heild sinni má nálgast á vef innanríkisráðuneytis:

http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/29327

Nánari upplýsingar um matið og skýrslur um nothæfisstuðul og nothæfistíma er meðal annars að finna í fréttum sem birtar hafa verið á vef Isavia. 

Betri gögn - vandaðra áhættumat

Ný greining á nothæfistíma og nothæfisstuðli Reykjavíkurflugvallar