Hoppa yfir valmynd
29.5.2024
Úrvalið aldrei verið betra - Fleiri kostir fyrir gesti í sumar

Úrvalið aldrei verið betra - Fleiri kostir fyrir gesti í sumar

Fjöldi nýrra veitingastaða og verslana bætast við flóruna á Keflavíkurflugvelli á næstu vikum, sumarferðalöngum til gleði og ánægju.

Skammt er þangað til þrír veitingastaðir munu opna á nýju veitingasvæði í brottfararsalnum, þar sem hlýleg, notaleg og afslöppuð upplifun verður í fyrirrúmi. Þetta eru staðirnir Yuzu, La Trattoria og Zócalo. Á öllum veitingastöðunum verður mikið lagt upp úr hröðum afgreiðslutíma og verður hægt að panta úr sjálfsafgreiðslu og beint frá borðinu. Allan mat er hægt að velja um að borða á stöðunum og taka með sér í umhverfisvænum umbúðum.

Þá mun ein þekktasta fataverslun landsins, Húrra Reykjavík, opna nýja verslun í brottfararsalnum á næstu vikum. Bláa Lónið opnaði nýverið endurbætta verslun sína á flugvellinum og væntanlegar eru nýjar glæsilegar verslanir hjá Rammagerðinni og 66°Norður.

Alvöru götustemning

Mikil fjölbreytni verður í mat og drykk hjá Yuzu, La Trattoria og Zócalo og framboðið ólíkt á milli veitingastaðanna þriggja til að koma til móts við þarfir og óskir sem flestra gesta. Allir réttir eru sérvaldir og útfærðir þannig að þeir séu mjög hraðir í afgreiðslu en ekki á kostnað gæðanna. Auk hefðbundinna matseðla bjóða allir staðirnir upp á sérstaka morgunverðarseðla og barnaseðla auk vegan rétta.

„Hamborgarastaðurinn Yuzu er vel þekktur meðal matgæðinga og hefur staðurinn margoft hlotið verðlaun fyrir hamborgarana sína,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga. Á Yuzu verður boðið upp á vinsælustu réttina af matseðli þeirra, auk þess sem avocado borgarar, vöfflur og pönnukökur verður á morgunverðarseðlinum.

La Trattoria er íslenskur veitingastaður sem býður upp á ítalska rétti, þar sem áhersla er lögð á hágæða hráefni og einfaldleika og úrval af Zenato vínum. Staðurinn opnaði fyrst í mathöllinni í Hafnartorgi og hefur notið mikilla vinsælda síðan. „Hrefna Sætran, einn af okkar þekktustu kokkum og Ágúst Reynisson veitingamaður, eiga heiðurinn að matseðlinum á La Trattoria. Ferskt pasta framleitt á staðnum, ljúffengar pizzur og bruchettur í úrvali eru dæmi um rétti í boði. En ég er nokkuð viss um að antipasti pakkinn þeirra verði mjög vinsæll að taka með sér í flugferðina,“ segir Gunnhildur.

Zócalo er mexíkósk skyndibitakeðja í eigu Einars Arnar Einarssonar, annars stofnanda Serrano á Íslandi. Fyrsti Zócalo staðurinn var opnaður í Svíþjóð árið 2015, en í dag eru þeir orðnir sextán talsins í þremur löndum en þessi verður sá fyrsti á Íslandi. Á Zócalo verður boðið upp á ferskan og hollan mexíkóskan mat sem hentar ólíkum þörfum á öllum tímum dagsins s.s. burritos, tacos, salatskálar, og nachos.

Gróska og nýliðun

Nýliðun og gróska mun einkenna verslunarúrvalið á flugvellinum í sumar. Fataverslunin Húrra Reykjavík, mun bjóða gestum upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir gesti á leið sinni úr landi. Vörurnar verða í boði á hagstæðu fríhafnarverði, til jafns við öll kyn.  Þá verða að sjálfsögðu seldir strigaskór í versluninni en Húrra Reykjavík hefur lengi lagt kapp á að bjóða upp á eitt besta úrval landsins af strigaskóm.

Glæsileg og endurbætt verslun Blue Lagoon Skincare hefur opnað en húðvörur þeirra hafa notið gífurlegra vinsælda meðal ferðalanga. Í versluninni er húðvörubar, þar sem gestir geta fengið sér sæti og prófað vörurnar ásamt því að fá persónulega ráðgjöf.

„Það er svo gaman að fá að taka þátt í endurnýjun og uppbyggingu eins og flugvöllurinn hefur verið að ganga í gegnum núna en sérstaklega er ánægjulegt að sjá hversu vel gestir taka nýjungunum og hve ánægðir þeir eru með þjónustuna sem þeir eru að fá. Það verður nóg að gera í sumar og það skiptir okkur öllu máli að gestirnir séu ánægðir,“ segir Gunnhildur.

Ný verslun 66°Norður opnar á næstu vikum þar sem áfram verður í boði frábært úrval útivistarfatnaðar. Rammagerðin mun sömuleiðis opna nýja og endurbætta verslun, þar sem vandaðar íslenskar hönnunar- og gjafavörur verða í boði.

Gósenland fyrir matgæðinga

Lifandi matarsena verður allsráðandi í KEF í sumar en fjöldi nýrra veitingastaða hafa opnað og enn fleiri eru væntanlegir.

Loksins Café & Bar opnaði nýverið stærri stað í suðurbyggingu flugvallarins. Til viðbótar við gott úrval drykkja líkt og áður, býður Loksins upp á fjölbreyttan matseðil með nýbökuðu handgerðu bakkelsi, morgunverðarskálum, salötum, fersku ciabatta og girnilegum heitum réttum.

Handverksbakaríið Bakað hefur opnað tvo staði á vellinum, þar sem er boðið upp á gómsætt bakkelsi, nýbakað brauð og pizzur, heilsusamlegir safar, salöt og rjúkandi heitt gæðakaffi frá Te & kaffi. Tilvalið fyrir þá sem eru á hraðferð og vilja grípa með sér.

Bæjarins beztu pylsur reka nú þrjá sölustaði á flugvellinum og selja gestum ekta íslenskar pylsur úr pylsuvögnum.

Nýr íslenskur veitingastaður, Keflavík Diner, mun opna á 1. hæð í suðurbyggingu vallarins. „Veitingaframboðið þar er sérsniðið að erlendum tengi- og brottfararfarþegum sem eru flestir á leið til Bandaríkjanna eða Bretlands. Úrvalið endurspeglar þarfir þeirra og er áhersla lögð á einfaldan mat sem farþegar þekkja en með íslensku ívafi í hráefni og hönnun,“ segir Gunnhildur. Keflavík Diner sækir innblástur sinn í sögu svæðisins og er með skírskotun til tímans þegar ameríski herinn var í Keflavík á árunum 1951-2006. Í boði verður fjölbreyttur matseðill með áherslu á ameríska matargerð í bland við íslenska rétti.“

Veitingastaðurinn Sbarro mun opna nýjan og stærri stað á 1. hæð í suðurbyggingu og býður gestum upp á úrval af nýbökuðum pizzum ásamt sérstökum morgunverðarréttum. Allt deig er bakað daglega á staðnum.

Veitingastaðurinn Elda opnaði í KEF í fyrra og þar er boðið upp á fjölbreytta kosti eins og klassíska rétti með íslensku hráefni, góða grænmetis- og veganrétti og metnaðarfullan barnamatseðil. Ísey skyrbar er inni á staðnum með ferskar skálar í boði.

Jómfrúin, sem er mörgum landsmönnum að góðu kunn, opnaði á síðasta ári og býður upp á danskt smurbrauð en einnig klassíska heita rétti og auðvitað alls kyns drykki líkt og úrval af bjór og snöfsum.