Hoppa yfir valmynd

Hvenær þarf ég að mæta á flugvöllinn?

Við hvetjum farþega að mæta tímanlega þar sem raðir geta myndast á álagstímum. Innritun opnar 03.45 að morgni en að jafnaði 2,5 til 3 tímum fyrir brottför og gott er að miða komu sína á völlinn við þann tíma.
Við bendum á að fljótlegasta leiðin er að innrita sig á netinu eða í appi heiman fyrir og/eða í sjálfsafgreiðsluvélum okkar í innritunarsalnum. Við í samstarfi við flugfélögin gerum okkar besta til að tryggja góða upplifun af ferlinu.

Netinnritun

Þetta er fljótlegasta leiðin. Þú innritar þig hjá þínu flugfélagi, annað hvort í gegnum app eða vef og færð brottfararspjaldið í símann eða með tölvupósti. Ef þú ferðast einungis með handfarangur geturðu farið beint upp í brottfararsalinn en annars þarftu að skila af þér farangrinum.

Sjálfsafgreiðsla (kiosk)

Í innritunarsalnum eru yfir 60 sjálfsafgreiðslustöðvar sem eru opnar allan sólarhringinn. Þú innritar þig með því að fylgja leiðbeiningum á skjánum og ef þú ferðast með farangur færðu útprentaðan töskumiða sem þú setur á töskuna og skilar svo farangrinum af þér. Eina sem þú þarf að hafa til taks er bókunarnúmerið eða vegabréfið. Opnunartími fyrir móttöku á farangri er kl. 03:45.

Innritun hjá flugfélagi

Þetta er seinlegasta leiðin enda eru biðraðirnar oft langar en henta þeim sem kjósa að fá aðstoð við innritunina. Innritunin fer fram í innritunarsal á 1. hæð. Þú getur skilað af þér töskunni á sama stað og færð afhent útprentað brottfararspjald. 

Töskuafhending

Ef þú ferðast með farangur og notast við netinnritun eða sjálfsafgreiðslu ferðu í sjálfvirka töskuafhendingu eftir innritun. Þú skannar brottfararspjaldið þitt og taskan fer sína leið. Passa þarf að töskulímmiði sé sýnilegur.

Ef þú ferðast með sérstærðarfarangur (odd size baggage) er ekki hægt að fara í sjálfsafgreiðslu heldur þarf að fara á sérstakt svæði í innritunarsal. Skíði, golfsett, barnakerrur og barnabílstólar ásamt fleiru teljast vera sérstærðarfarangur.

Eftir innritun

Eftir innritun er farið beint í öryggisleit á 2. hæð og þaðan inn á brottfarasvæðið. Þar má finna úrval veitingastaða og verslana sem allar eru undanþegnar virðisaukaskatti. Boðið er uppá ótakmarkað frítt þráðlaust internet ásamt fjölda innstungna til að hlaða raftæki.