Hvað þarf að hafa í huga þegar farið er í gegnum öryggisleit?
Eftir að þú hefur innritað þig ferðu upp á 2. hæð í öryggisleitina en fyrst þarftu að fara í gegnum aðgangsstýringarhlið með því að skanna brottfararspjaldið.
Allur vökvi þarf að vera í sérstökum glærum plastpoka sem hægt er að loka og má hver eining í pokanum vera 100 millilítrar eða minna. Heildarmagnið í pokanum þarf að vera undir einum lítra. Þú getur fengið plastpoka fyrir vökvann áður en þú ferð í gegnum öryggisleit.
Auk vökva þurfa fartölvur og stærri raftæki, yfirhafnir, belti og skór að fara í þar til gerðan bakka sem er skannaður.
Farþegar mega hafa rafsígarettur meðferðis og taka þær með í handfarangri (en ekki í innrituðum farangri).
Hafa ber í huga að allur innritaður farangur fer í gegnumlýsingu, sem er hluti af öryggisleit fyrir flug. Stundum þarf að kanna betur innihald farangurs og opna ferðatöskur. Farþegum ber að tryggja að hlutum sé haganlega komið fyrir þannig að ekki sé hætta á að farangur detti úr ferðatöskum þegar þær eru opnaðar. Ekki er tekin ábyrgð á hlutum sem falla úr farangri við þessar aðstæður.
Hvað fer í bakkann?
- Vökvi: Plastpoki með vökva fer í bakkann.
- Fartölvur og stærri raftæki: Símar, spjaldtölvur, snjallúr og stærri raftæki fara í bakkann.
- Belti, yfirhafnir og skór: Mikilvægt er að tæma alla vasa áður en farið er í gegnum öryggishlið. Yfirhafnir, skór og belti fara í bakkann.
Ef bannaðir hlutir eða aðrir hlutir sem ekki má hafa meðferðis finnast í handfarangri er þér gefinn kostur á að innrita hlutina svo framarlega sem þeir mega fara í flug. Aðstaða til að geyma bannaða hluti er ekki fyrir hendi á Keflavíkurflugvelli.