Hoppa yfir valmynd

Listaverk á Keflavíkurflugvelli


Áttir (Directions)

Listaverkið Áttir er eftir Steinunni Þórarinsdóttur (1955). Verkið samanstendur af fjórum fígúrum í mannsmynd sem allar eru steyptar í sama mót úr áli. Þær standa á súlum úr íslensku stuðlabergi og snúa í höfuðáttirnar fjórar. Hæð verksins er um 3 metrar og er það innan ramma sem er 3x3 metrar að flatarmáli. Verkið var afhjúpað við vígslu endurbættrar flugstöðvar í apríl 2007. Áttir stóð upphaflega á verslunarsvæði inni í flugstöðvarbyggingunni en í júní 2017 var verkinu fundinn nýr staður í samráði við listamanninn og stendur það nú fyrir utan komusal flugstöðvarinnar. „Verkið vísar auðvitað sterkt til ferðalaga með því að horfa til höfuðáttanna. Það vísar líka til þess að öll getum við orðið áttavillt í lífinu og þá er nauðsynlegt að finna réttu leiðina.“ - segir listamaðurinn. 

Silver sabler

Listaverkið er eftir Erró (1932) og er veggverk úr handmáluðum keramikflísum. Silver Sabler er eftirmynd málverks með sama nafni frá árinu 1999, en hefur hér verið stækkað upp í keramikmynd sem er 11 metra breið og 4,5 metra há. Verkið fjallar öðrum þræði um goðsagnir háloftanna, rótleysi nútímamannsins og flugstöðina sem vettvang ævintýranna. Verkið var sett upp árið 2017 á verslunarsvæði flugstöðvarinnar.

Flekaskil (Rift)

Listaverkið Flekaskil er eftir Kristján Guðmundsson (1941). Verkið sýnir á táknrænan hátt skil Norður-Ameríku og Evrasíu jarðflekanna sem ganga frá Reykjanesi á suðvesturhorni Íslands til norðausturhorns landsins. Um er að ræða gólfverk sem er 15 metra löng lína úr ryðfríu stáli greypt í eikargólfið á 1. hæð suðurbyggingar flugstöðvarinnar. Verkið er hugsað þannig að stefnan á línunni er sú sama og meginstefna flekaskilanna. Línan er tveir cm á breidd sem samsvarar meðal breikkun rifunnar milli flekanna á einu ári.

Tilvísunarpunktur (Reference point)

Verkið Tilvísunarpunktur er eftir Kristján Guðmundsson (1941). Verkið vísar til ákveðins staðar, brautarmótanna þar sem flugbrautir Keflavíkurflugvallar skarast, í lengdar og breiddargráðum. Listaverkið er áletrun í gólfi, stafir úr ryðfríu stáli eru greyptir í eikargólfið á 2. hæð suðurbyggingar flugstöðvarinnar. Í kringum áletrunina er hringur úr stáli, um 5 cm breiður og 250 cm í þvermál, en hök í hringnum sýna höfuðáttirnar fjórar.

Regnbogi (Rainbow)

Listaverkið er eftir Rúrí (1951). Það stendur framan við flugstöðvarbygginguna spölkorn til norðurs. Verkið teygir sig 24 metra upp til himins, hæsta listaverk á Íslandi. Það er unnið úr ryðfríum stálrörum, ferhyrndum að lögun og steindu gleri. Litir regnbogans eru myndaðir með 313 gulum, rauðum, grænum og bláum steindum glereiningum. Verkið rís upp úr hellulögn úr íslensku grágrýti. Í rökkri er verkið lýst upp.  „Regnboginn er ófullgerður – Ég ímynda mér að einhvern tíma síðar meir, eftir svo sem eitthundrað eða þúsund ár verði þráðurinn tekinn upp aftur þar sem frá var horfið og smíðinni haldið áfram. Verkið myndi teygja sig hærra og hærra upp í himininn, síðan niður á við aftur. Þar til að lokum að endinn snerti jörðu, og regnboginn væri fullgerður“ - segir Rúrí um verkið.

Þotuhreiður (The jet nest)

Listaverkið er eftir Magnús Tómasson (1943). Þotuhreiðrið sýnir stórt egg úr ryðfríu stáli sem trjóna þotu brýst út úr líkt og fuglsungi. Stáleggið stendur á hrúgu af íslensku grjóti. Magnús Tómasson, höfundur verksins, segir hugmyndina að Þotuhreiðrinu fyrst hafa kviknað fyrir mörgum árum. „Ég var að vinna seríu um sögu fuglsins. Í henni kemur fyrir lítið hænuegg þar sem út sprettur goggur. Ég útfærði þessa hugmynd betur og útkoman er Þotuhreiðrið, sem er mitt stærsta verk.“ Þotuhreiðrið stendur norðanmegin við flugstöðvarbygginguna í upplýstri tjörn. Verkið allt er um 9 m á hæð. Eggið er úr ryðfríu stáli, er 5,6 m hátt og 4,2 m á breidd og vegur á sjötta tonn. Steinhrúgan er um 14 m í þvermál og tjörnin um 1.800 m2.

Flugþrá (Yearning for flight)

Flugþrá er annað af tveimur glerlistaverkum eftir Leif Breiðfjörð (1945). Lögun verkanna minnir á flugdreka og eru þau hönnuð í samræmi við arkitektúr byggingarinnar. Ópalgler og gular kúlur eru felldar inn í skermana og vakna til lífsins að kvöldlagi þegar rafmagnsljósum er beint að verkunum. Flugþrá er 720 x 970 cm að stærð og hangir uppi í brottfarasal gegn norðurglugga.


Íkarus (Icaros)

Íkarus er annað af tveimur glerlistaverkum eftir Leif Breiðfjörð (1945). Leiðarstef beggja verkanna er þrá fólks til að fljúga og í þeim birtast tilvísanir í goðsögnina um Íkarus, geimfara nútímans og fugla himinsins. Verkið er lýst upp á kvöldin. Íkarus er 490 x 970 cm að stærð og hangir uppi í brottfarasal gegn suðurglugga.

Lágmynd af Leifi Eiríkssyni (Bas-relief of Leifur Eiríksson)

Listaverkið er eftir Ívar Valgarðsson (1954). Verkið er lágmynd af styttu eftir Alexander Calder sem sýnir Leif Eiríksson og stendur á Skólavörðuholti í Reykjavík. Myndin er á þrístrendum steinstólpa úr íslenskum grásteini sem er 2,8 metrar á hæð. Frú Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti, afhjúpaði lágmyndina af Leifi Eiríkssyni við vígslu flugstöðvarinnar 14. apríl 1987, en við hann er flugstöðvarbyggingin kennd.

Listaverk eftir Sigurjón Ólafson

Ég bið að heilsa

Listaverkið er eftir Sigurjón Ólafsson (1908-1982). Heiti verksins vísar í samnefnt ljóð Jónasar Hallgrímssonar, sem hann orti í Kaupmannahöfn vorið 1844. Þó að form verksins sé abstrakt má finna í því vísanir í ljóð Jónasar, bæði í fuglinn sem fer með fjaðrabliki háa vegaleysu og stúlkuna heima á Íslandi sem skáldið sendi kveðjur sínar, tilvísanir sem segja má að endurspeglist einnig í mannfjöldanum sem mætist í flugstöðinni, heilsast og kveður. Flugstöðin eignaðist verkið árið 1988 og er staðsett í landgangi flugstöðvarinnar.