Hoppa yfir valmynd

Listaverk

Í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru falleg listaverk eftir íslenska listamenn.

Isavia hefur boðið listamanninum og sýningarstjóranum Kristínu Scheving að setja upp röð sýninga á alþjóðaflugvellinum í Keflavík þar sem ljósakerfið í aðalbyggingu flugstöðvarinnar er virkjað í samtali við vídeóverk í miðrými byggingarinnar. Þeir sem sækja húsið heim eru inni í innsetningunni frá því þeir ganga upp á aðra hæðina og alla leið að verslunarsvæðinu. Kristín hefur í meira en áratug unnið að áþekkum verkefnum með vídeó og listrænni lýsingu í almenningsrýmum.

GAIA BREATHING VARIATION III

Gaia Breathing Variation lll (2017) by Sigrún Harðardóttir
Sýningarnar eru tilraunaverkefni þar sem valdir íslenskir listamenn munu sýna verk sín út árið 2018. Í verkum þeirra birtast mismunandi möguleikar hreyfimynda sem eiga sérstaklega vel við það millibilsástand og einskismannsland sem segja má að alþjóðaflugvöllur sé. Gestum flugstöðvarinnar er veitt ný upplifun í gegnum tilraunir með ljós og vídeó.

MISTY BLUE RAIN

Misty Blue Rain (2015) by Ásdís Sif Gunnarsdóttir
Menningarlegt landslag nútímans er á margan hátt skilgreint af þeim myndum sem okkur eru sýndar á skjáum. Í margbreytilegu samhengi geta myndir á skjá rakið sig eftir minningum og vakið ímyndunaraflið, á sama hátt og jarðlög í landslaginu – það er á skjánum sem þetta allt fellur saman í eina sýnilega heild. Skjárinn er hins vegar sýndarfyrirbæri í sjálfum sér, og á honum væri ekkert að sjá ef ekki væri fyrir ljóseindir á ferð og flugi. Sýningarröðin víkkar út hugmyndir um lýsingu og rafræna miðlun mynda sem ættaðar eru úr listasöfnum. Hér eru þær settar inn í rými sem markast af neyslu, hreyfingu og ferðalögum, en með tilfærslunni er staða og tilvist áhorfandans endurskoðuð út frá þessum nýjum reynsluheim.

BRAIN

Brain (2014-2067) by Haraldur Karlson
Þrír íslenskir listamenn munu sýna verk sín frá janúar til október 2018. Auk þess að sýna myndir af íslensku landslagi, fara þessi verk á milli ímyndunaraflsins og viðkvæmustu tilfinninga í marglaga hreyfingu frá yfirborðinu og inn að kjarnanum. Með því að láta ímyndunaraflið skrásetja skyntúlkunina eru verkin þanin milli tveggja heima, eða jafnvel þriggja, eins og sendiboðar sem fara milli hins ímyndaða heims, áþreifanlegs veruleikans, og tæknilegs ástands okkar tíma. Verkin búa til tengingu milli líkama og sálar þar sem tæknin er nýtt til að kalla fram margbreytileg skynáhrif.


8. febrúar - 21. mars
Gaia Breathing Variation lll (2017)

Sigrún Harðardóttir er fædd árið 1954 í Reykjavík. Hún er myndlistarmaður sem vinnur með mismunandi miðla þar sem tæknin er að jafnaði undirliggjandi stef í verkum hennar. Myndræn útfærsla á viðfangsefnum hennar hefur þróast frá aðallega tvívíðum miðlum yfir í flókin gagnvirk umhverfisverk. Sigrún stundaði framhaldsnám við sjónlistadeild Ríkisakademíunnar í Amsterdam. Hún er með MA-gráðu í margmiðlunarfræði, með áherslu á gagnvirkar innsetningar, frá Háskólanum í Quebec í Montreal og BFA-gráðu frá Listaháskóla Íslands. Sigrún er búsett í Reykjavík.

22. mars - 3. maí
Misty Blue Rain (2015)

Ásdís Sif Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1976. Verk hennar eru bæði sett upp fyrir framan áhorfendur og eins í beinni útsendingu á internetinu, miðli sem hentar vel þeim tímabundnu og rýmismörkuðu víddum sem hún kannar í verkum sínum. Í ljóðlistinni sem Ásdís nýtir gjarna í uppsetningum sínum, notar hún oft íburðarmikil stef sem geyma bæði veraldlegar og yfirnáttúrulegar tilvísanir. Hún er með BFA-gráðu frá Sjónlistaskólanum í New York og MA-gráðu í nýlistum frá UCLA. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og erlendis, þar á meðal í Tate Gallery, Centre Pompidou, á kvikmyndahátíðinni í Róm, og TBA 21. Hún er nú um stundir búsett í Reykjavík.

30. ágúst - 10. október
Brain (2014-2067)

Haraldur Karlsson (1967) hefur sérhæft sig í tilraunakenndri vídeólist síðastliðna tvo áratugi. Haraldur er með próf í fjöltækni frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og BA-próf í nýjum miðlum frá AKI ArtEZ Academie voor Art & Industry í Enschede, Hollandi. Hann lærði hljóðhönnun við Royal Conservatory í Hague. Á árunum 1999–2009 vann Haraldur við Listaháskóla Íslands og var forstöðumaður og kennari í Tón- og Vídeóveri. Haraldur hefur haldið fjölda sýninga, gjörninga og fyrirlestra bæði á Íslandi og erlendis. Hann er um þessar mundir

ÖNNUR LISTAVERK Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI

ÁTTIR (DIRECTIONS)

Listaverkið Áttir er eftir Steinunni Þórarinsdóttur (1955). Verkið samanstendur af fjórum fígúrum í mannsmynd sem allar eru steyptar í sama mót úr áli. Þær standa á súlum úr íslensku stuðlabergi og snúa í höfuðáttirnar fjórar. Hæð verksins er um 3 metrar og er það innan ramma sem er 3x3 metrar að flatarmáli. Verkið var afhjúpað við vígslu endurbættrar flugstöðvar í apríl 2007. Áttir stóð upphaflega á verslunarsvæði inni í flugstöðvarbyggingunni en í júní 2017 var verkinu fundinn nýr staður í samráði við listamanninn og stendur það nú fyrir utan komusal flugstöðvarinnar.

Um Áttir segir listamaðurinn: „Verkið vísar auðvitað sterkt til ferðalaga með því að horfa til höfuðáttanna. Það vísar líka til þess að öll getum við orðið áttavillt í lífinu og þá er nauðsynlegt að finna réttu leiðina.“

Vefsíða Steinunnar: www.steinunnth.com

.

SILVER SABLER 

Listaverkið er eftir Erró (1932) og er veggverk úr handmáluðum keramikflísum. Silver Sabler er eftirmynd málverks með sama nafni frá árinu 1999, en hér hefur verið stækkað upp í keramikmynd sem er 11 metra breið og 4,5 metra há. Verkið fjallar öðrum þræði um goðsagnir háloftanna, rótleysi nútímamannsins og flugstöðina sem vettvang ævintýranna.

Verkið var sett upp árið 2017 á verslunarsvæði flugstöðvarinnar.

FLEKASKIL (RIFT)

Listaverkið Flekaskil er eftir Kristján Guðmundsson (1941). Verkið sýnir á táknrænan hátt skil Norður-Ameríku og Evrasíu jarðflekanna sem ganga frá Reykjanesi á suðvesturhorni Íslands til norðausturhorns landsins. Um er að ræða gólfverk sem er 15 metra löng lína úr ryðfríu stáli greypt í eikargólfið á 1. hæð suðurbyggingar flugstöðvarinnar. Verkið er hugsað þannig að stefnan á línunni er sú sama og meginstefna flekaskilanna. Línan er tveir cm á breidd sem samsvarar meðal breikkun rifunnar milli flekanna á einu ári.

Verkið er eitt af verkum sem valið var í listaverkakeppni þegar suðurbygging Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var reist.

TILVÍSUNARPUNKTUR (REFERENCE POINT)

Verkið Tilvísunarpunktur er eftir Kristján Guðmundsson (1941). Verkið vísar til ákveðins staðar, brautarmótanna þar sem flugbrautir Keflavíkurflugvallar skarast, í lengdar og breiddargráðum. Listaverkið er áletrun í gólfi, stafir úr ryðfríu stáli eru greyptir í eikargólfið á 2. hæð suðurbyggingar flugstöðvarinnar. Í kringum áletrunina er hringur úr stáli, um 5 cm breiður og 250 cm í þvermál, en hök í hringnum sýna höfuðáttirnar fjórar.

Verkið er eitt af verkum sem valið var í listaverkakeppni þegar suðurbygging Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var reist.

REGNBOGI (RAINBOW)

Listaverkið er eftir Rúrí (1951). Það stendur framan við flugstöðvarbygginguna spölkorn til norðurs. Verkið teygir sig 24 metra upp til himins, hæsta listaverk á Íslandi. Það er unnið úr ryðfríum stálrörum, ferhyrndum að lögun og steindu gleri. Litir regnbogans eru myndaðir með 313 gulum, rauðum, grænum og bláum steindum glereiningum. Verkið rís upp úr hellulögn úr íslensku grágrýti. Í rökkri er verkið lýst upp.
Um verkið segir Rúrí: „Regnboginn er ófullgerður – Ég ímynda mér að einhvern tíma síðar meir, eftir svo sem eitthundrað eða þúsund ár verði þráðurinn tekinn upp aftur þar sem frá var horfið og smíðinni haldið áfram. Verkið myndi teygja sig hærra og hærra upp í himininn, síðan niður á við aftur. Þar til að lokum að endinn snerti jörðu, og regnboginn væri fullgerður …“

Regnbogi er annað tveggja verka sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um listaverk við Flugstöð Leifs Eiríkssonar stuttu eftir að hún var vígð. Verkið var reist árið 1991.

Vefsíða Rúríar: www.ruri.is

ÞOTUHREIÐUR (THE JET NEST)

Listaverkið er eftir Magnús Tómasson (1943). Þotuhreiðrið sýnir stórt egg úr ryðfríu stáli sem trjóna þotu brýst út úr líkt og fuglsungi. Stáleggið stendur á hrúgu af íslensku grjóti. Magnús Tómasson, höfundur verksins, segir hugmyndina að Þotuhreiðrinu fyrst hafa kviknað fyrir mörgum árum. „Ég var að vinna seríu um sögu fuglsins. Í henni kemur fyrir lítið hænuegg þar sem út sprettur goggur. Ég útfærði þessa hugmynd betur og útkoman er Þotuhreiðrið, sem er mitt stærsta verk.“ Þotuhreiðrið stendur norðanmegin við flugstöðvarbygginguna í upplýstri tjörn. Verkið allt er um 9 m á hæð. Eggið er úr ryðfríu stáli, er 5,6 m hátt og 4,2 m á breidd og vegur á sjötta tonn. Steinhrúgan er um 14 m í þvermál og tjörnin um 1.800 m2.

Þotuhreiðrið er annað tveggja verka sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um listaverk við Flugstöð Leifs Eiríkssonar stuttu eftir að hún var vígð.

FLUGÞRÁ (YEARNING FOR FLIGHT)

Flugþrá er annað af tveimur glerlistaverkum eftir Leif Breiðfjörð (1945) í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Lögun verkanna minnir á flugdreka og eru þau hönnuð í samræmi við arkitektúr byggingarinnar. Ópalgler og gular kúlur eru felldar inn í skermana og vakna til lífsins að kvöldlagi þegar rafmagnsljósum er beint að verkunum.

Flugþrá er 720 x 970 cm að stærð og hangir uppi í brottfarasal gegn norðurglugga.


ÍKARUS (ICAROS)

Íkarus er annað af tveimur glerlistaverkum eftir Leif Breiðfjörð (1945) í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Leiðarstef beggja verkanna er þrá fólks til að fljúga og í þeim birtast tilvísanir í goðsögnina um Íkarus, geimfara nútímans og fugla himinsins. Verkið er lýst upp á kvöldin.

Íkarus er 490 x 970 cm að stærð og hangir uppi í brottfarasal gegn suðurglugga.

LÁGMYND AF LEIFI EIRÍKSSYNI (BAS-RELIEF OF LEIFUR EIRÍKSSON)

Listaverkið er eftir Ívar Valgarðsson (1954). Verkið er lágmynd af styttu eftir Alexander Calder sem sýnir Leif Eiríksson og stendur á Skólavörðuholti í Reykjavík. Myndin er á þrístrendum steinstólpa úr íslenskum grásteini sem er 2,8 metrar á hæð.

Frú Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti, afhjúpaði lágmyndina af Leifi Eiríkssyni við vígslu flugstöðvarinnar 14. apríl 1987, en við hann er flugstöðvarbyggingin kennd.

ÉG BIÐ AÐ HEILSA

Listaverkið er eftir Sigurjón Ólafsson (1908-1982). Heiti verksins vísar í samnefnt ljóð Jónasar Hallgrímssonar, sem hann orti í Kaupmannahöfn vorið 1844. Þó að form verksins sé abstrakt má finna í því vísanir í ljóð Jónasar, bæði í fuglinn sem fer með fjaðrabliki háa vegaleysu og stúlkuna heima á Íslandi sem skáldið sendi kveðjur sínar, tilvísanir sem segja má að endurspeglist einnig í mannfjöldanum sem mætist í flugstöðinni, heilsast og kveður.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar eignaðist verkið árið 1988. Verkið í flugstöðinni er ein af þremur bronsafsteypum og er staðsett í landgangi flugstöðvarinnar.

Vefsíða listasafns Sigurjóns Ólafssonar: www.lso.is