Hoppa yfir valmynd

Endurgreiðsla á virðisaukaskatti

Reglur um endurgreiðslu á virðisauka

Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt til (aðila búsettra erlendis) af varningi sem þeir hafa fest kaup á hér á landi að uppfylltum skilyrðum reglugerðar.

Skilyrði endurgreiðslu er að kaupandi vörunnar sé með fasta búsetu í öðru landi en á Íslandi. Til sönnunar á fastri búsetu erlendis skal leggja fram vegabréf eða önnur skilríki sem ótvírætt sanna fasta búsetu í öðru landi. Útlendingar með fasta búsetu hér á landi eiga ekki rétt á endurgreiðslu.

Til að endurgreiðsla fáist verður að uppfylla öll eftirtalinna skilyrða:
1. Kaupandi hafi vöruna á brott með sér úr landi innan þriggja mánaða frá því að kaupin voru gerð.
2. Kaupverð vörunnar með virðisaukaskatti nemi minnst 12.000 kr.
3. Vörunni sé framvísað ásamt tilskildum gögnum við brottför.

Farþegar þurfa að óska eftir endurgreiðslu virðisaukaskatts áður en þeir innrita farangur sinn.

Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt af vörum á einum og sama vörureikningi sé kaupverð þeirra samtals 12.000 kr. eða meira ásamt virðisaukaskatti, þó einn eða fleiri munir nái ekki tilskilinni lágmarksfjárhæð.

Við brottför úr landi frá Keflavíkurflugvelli skal kaupandi framvísa varningi ásamt endurgreiðsluávísun og greiðslukvittun til endurgreiðsluaðila, er leysir hana til sín, enda séu skilyrði reglugerðar þessarar að öðru leyti uppfyllt.

Reglugerð um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis.

Staðsetning

Endurgreiðsla virðisaukaskatts fer fram í komusal rétt við kaffihúsið Bakað.  Skoða kort.